VALMYND ×

Fjármálafræðsla

Síðastliðinn föstudag heimsóttu þær Elísabet Samúelsdóttir og Þórunn Snorradóttir 10. bekk á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) með námsefnið Fjármálavit. Námsefnið er fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla og er tilgangurinn að veita innblástur í kennslu um fjármál. Efnið er þróað af SFF í samvinnu við starfsmenn þeirra, kennara og kennaranema.

Námsefnið er byggt upp sem sjálfstæðar kennslustundir með umræðum og verkefnum, en til stuðnings eru einnig nokkur stutt myndbönd sem nemendur geta horft á til að tengja við viðfangsefnið. Myndböndin segja á gamansaman hátt frá þremur unglingum og vangaveltum þeirra um fjármál.
Verndari Fjármálavits er Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður sem veitir ungu fólki heilræði í stuttu myndbandi og vitnar þar í eigin reynslu af fjármálum.

Fjármálavit hóf göngu sína í Evrópskri peningaviku í mars 2015. Yfir þúsund nemendur í efstu bekkjum grunnskóla fengu þá heimsókn frá starfsmönnum fjármálafyrirtækja með efni Fjármálavits og verður áfram boðið upp á heimsóknir í skóla í vetur, að því er fram kemur á heimasíðu verkefnisins.

Deila