VALMYND ×

Dansæfingar hjá 10.bekk

1 af 2

Allt frá árinu 1981 hafa foreldrar nemenda í 10.bekk haldið þorrablót fyrir árganginn, eða alls 40 sinnum. Þessar skemmtanir hafa staðið upp úr hvað varðar glæsileika og skemmtanagildi. Nemendur, foreldrar, ömmur og afar mæta gjarnan í sínu fínasta pússi og margir í þjóðbúningum, borða saman þorramat, njóta heimatilbúinna skemmtiatriða foreldra sem alltaf slá í gegn, syngja þjóðleg lög og dansa að lokum gömlu dansana upp á gamla mátann. Starfsmenn skólans eru einnig boðnir á blótin og hafa þeir alltaf haft skemmtiatriði á dagskránni.

Því miður er ekki færi á að halda slíka skemmtun á bóndadaginn 22.janúar eins og áætlað var, vegna fjöldatakmarkana í þeirri reglugerð sem nú er í gildi til 28.febrúar n.k. vegna farsóttarinnar. Þrátt fyrir það hafa 10.bekkingar hafið dansæfingar undir stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara. Við erum staðráðin í því að halda einhverja skemmtun fyrir árganginn þegar um hægist í samfélaginu, hvenær sem það nú verður. Eitt er víst að dansinn verður klár hjá krökkunum og gaman að sjá gleðina sem skein úr þeirra augum á dansæfingu í morgun.

Deila