VALMYND ×

Dagur íslenskrar tungu

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996 og hafa grunnskólanemendur verið duglegir að taka þátt í hátíðinni í gegnum árin. Nemendur og starfsfólk G.Í. ætla að hittast kl. 11:55 í anddyri nýja skólans og syngja nokkur lög í tilefni dagsins, auk þess sem Stóra upplestrarkeppnin verður formlega sett. Einnig má geta þess að nýr skólasöngur verður frumfluttur.