VALMYND ×

9. bekkur kominn í ferðamannabransann

Þessa dagana er 9. bekkur að ljúka við verkefni sem unnið er sameiginlega í ensku og dönsku og gengur út á það að útbúa ferðabækling og annast leiðsögn fyrir ferðamenn um Ísafjörð. Krakkarnir stofna ferðaskrifstofu, ákveða hver markhópur skrifstofunnar er, og hvaða staðir verða heimsóttir. Síðan gera þau bækling á ensku og dönsku um þessa staði, setja inn myndir og upplýsingar og prenta hann út í lit. Að lokum fer hópurinn saman í göngu um bæinn og allir spreyta sig á að leika leiðsögumenn og kynna einhvern stað, bæði á ensku og dönsku. Þetta er skemmtilegt verkefni sem tekur tvær vikur og reynir á marga þætti. Vonandi viðrar vel á "túristana og leiðsögumennina" á föstudaginn þegar við förum í skoðunarferðina.

Markhópar þessara ferðaskrifstofa eru mjög margvíslegir, ferðirnar eru ætlaðar m.a. unglingum, þýskum ellilífeyrisþegum, fólki sem er í megrun, fuglaáhugafólki o.s.frv. svo að væntanlega verða viðkomustaðirnir líka fjölbreyttir og áhugaverðir.