VALMYND ×

Fréttir

Gjöf frá árgangi 1966

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, fulltrúi árgangsins við gjöfina góðu
Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, fulltrúi árgangsins við gjöfina góðu

Fyrrverandi nemendur skólans sem fæddir eru árið 1966 hittust hér á Ísafirði nú á vordögum og rifjuðu upp gamlar og góðar minningar frá grunnskólagöngu sinni. Við það tækifæri færðu þeir skólanum 3 gítara og 2 ukulele að gjöf. Hljóðfærin koma að afar góðum notum, jafnt í kennslu sem og við allskonar tækifæri og færum við árgangi 1966 kærar þakkir fyrir.

Nýr skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði

Kristján Arnar Ingason, nýr skólastjóri G.Í.
Kristján Arnar Ingason, nýr skólastjóri G.Í.

Kristján Arnar Ingason hefur verið ráðinn skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði og mun hefja störf við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst næstkomandi.

Kristján lauk stúdentsprófi af uppeldisbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1998. Árið 2002 lauk hann svo B.Ed prófi til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands. Um þessar mundir leggur Kristján stund á meistaranám í stjórnun menntastofnana og auk þessa hefur hann aflað sér UEFA-B þjálfaragráðu frá Evrópska knattspyrnusambandinu og KSÍ-5 þjálfaragráðu frá Knattspyrnusambandi Íslands.

Kristján hefur 20 ára kennslureynslu en frá 2018 hefur hann starfað sem umsjónar- og faggreinakennari á eldra stigi og sem verkefnastjóri FabLab í Fellaskóla. Hann hefur jafnframt starfað tímabundið sem stigsstjóri eldra stigs, samhliða kennslu við skólann. Kristján starfaði sem deildarstjóri og umsjónarkennari við Birkimelsskóla og Patreksskóla árin 2016-2018 og þar áður sem fagstjóri og umsjónarkennari í Réttarholtsskóla árin 2002 til 2016. Á því tímabili (2008-2009) tók hann jafnframt að sér starf deildarstjóra unglingadeildar í Sæmundarskóla.

Við bjóðum Kristján hjartanlega velkominn til starfa, um leið og við þökkum Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur kærlega fyrir vel unnin störf, en hún hefur sinnt starfi skólastjóra frá nóvember 2007.

Hátíðleg skólaslit í Ísafjarðarkirkju

Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
1 af 9

Í gærkvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 148. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju, að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Forseti ávarpaði nemendur og gesti í upphafi athafnar og færði skólanum bækur að gjöf. Jón Hálfdán Pétursson, deildarstjóri unglingastigs setti athöfnina, en að því loknu tóku kynnar við, þau Hjálmar Helgi Jakobsson og Unnur Hafdís Arnþórsdóttir, nemenda í 9.bekk.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti sitt síðasta ávarp sem skólastjóri, en hún lætur nú af störfum eftir 15 ára starf. Þá fluttu systkinin Guðmundur og Sigrún Camilla Halldórsbörn ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Starfsmenn skólans stigu á stokk og sungu eitt lag og einnig buðu nokkrir útskriftarnemar upp á tónlistaratriði og fluttu lagið ,,Always look at the bright side of life".

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Elsa Ragnheiður Stefánsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Patrekur Bjarni Snorrason hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Sveinfríður Sigrún Stefánsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í heimilisfræði hlaut Tanja Kristín Ragnarsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í smíði og hönnun hlaut Ívar Hrafn Ágústsson.

 

Stöðin Heilsurækt gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Grétar Smári Samúelsson og Tanja Kristín Ragnarsdóttir.

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir og hlaut Birta Kristín Ingadóttir hana.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Tanja Kristín Ragnarsdóttir þau verðlaun.

 

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Unnur Guðfinna Daníelsdóttir.

Viðurkenningu fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Sigrún Camilla Halldórsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlaut Matilda Harriet Maeekalle.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Sigrún Camilla Halldórsdóttir .

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlaut Unnur Guðfinna Daníelsdóttir.

 

Undanfarin ár hefur Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gefið gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson.  Þessi viðurkenning hefur verið veitt nemanda í 10. bekk  fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi. Í þeim aðstæðum sem nemendur 10. bekkjar hafa þurft að glíma við í vetur var ómögulegt að velja einn eða tvo nemendur til að hljóta þessi verðlaun. Því ákvað stjórn Ísfirðingafélagsins að gefa öllum útskriftarnemum Grunnskólans gjafabréf í Ísafjarðarbíó.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2006 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

 

 

Skólaslit

Þriðjudaginn 7.júní verða skólaslit G.Í.

  • 1. bekkur mætir í viðtöl með foreldrum
  • 2. - 7. bekkur mætir í sínar bekkjarstofur kl. 10:00
  • 8.-10. bekkur mætir á skólaslit í Ísafjarðarkirkju kl.20:00

 Verðandi 1. bekkur hittir sína kennara sama dag kl.13:00-14:00 á meðan stjórnendur kynna skólastarfið fyrir foreldrum.

Styrkur frá Forriturum framtíðarinnar

Grunnskólinn á Ísafirði hefur hlotið styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar, sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í skólum landsins. Í ár styrkir sjóðurinn 18 skóla víðs vegar um landið annars vegar til námskeiða fyrir kennara og hins vegar til kaupa á smátækjum. Velja þurfti úr umsóknum og fengu færri en vildu.

G.Í. hlaut styrk úr báðum flokkum, sem mun nýtast vel við forritunarkennslu á mið- og unglingastigi. Við erum afar þakklát og munum nýta styrkinn vel.

 

 

Geðorðin 10

9.bekkur vann í vetur með geðorðin 10. Í dag skreyttu þau steina með geðorðunum og færðu bæjarbúum góð ráð. Einnig voru þau þýdd yfir á ensku svo ferðamenn gætu einnig fengið að njóta.

Bókaskil

Nú fara síðustu skóladagarnir í hönd og biðjum við alla að skila bókum í eigu skólans hið allra fyrsta á skólasafnið.

Golfæfingar

Síðastliðinn miðvikudag fór 7.bekkur í heimsókn á golfvöllinn í Tungudal og fékk að kynnast golfíþróttinni. Vel var tekið á móti hópnum og endaði dagurinn á pylsuveislu, sem allir kunnu vel að meta.

Listsköpun

Fjaran við Fjarðarstrætið er mikið nýtt þessa dagana af nemendum skólans. List-og verkgreinakennarar fóru á dögunum með 8.bekkinn í listsköpun í fjörunni úr þeim efnivið sem náttúran býður upp á. Til urðu hin fjölbreyttustu listaverk og voru nemendur einstaklega duglegir og frjóir í sköpuninni.

Skólaferðalag 10.bekkjar

Nú í maí fór 10.bekkur Grunnskólans á Ísafirði í skólaferðalag að Bakkaflöt í Skagafirði, ásamt nokkrum starfsmönnum og foreldrum. Hópurinn hafði eitt og annað fyrir stafni og má þar nefna litbolta, þrautabraut, flúðasiglingu, sundferðir og safnaheimsóknir. Matnum var einnig gerð góð skil og runnu kvöldkaffiveitingar frá foreldrum sérlega vel niður í svanga unglinga. Mikil ánægja var með ferðina hjá nemendum og fararstjórum þar sem hópurinn fékk mikið lof hvert sem hann kom.

Árgangurinn er nú á síðustu metrum grunnskólagöngu sinnar og formlegri kennslu lokið hjá þeim. Vorpróf standa nú yfir og að þeim loknum er þeim boðið upp á starfskynningar hjá fyrirtækjum hér í bæ, útivistardag og lokaball. Útskriftin sjálf er svo þriðjudaginn 7.júní n.k. kl. 20:00 í Ísafjarðarkirkju.