VALMYND ×

Fréttir

Nemendur heimsækja Kaufering

Þessa dagana eru 8 nemendur úr 10. bekk G.Í. ásamt 2 nemendum frá Þingeyri í heimsókn í Kaufering, sem er vinabær Ísafjarðarbæjar í Þýskalandi. Í dag heimsótti hópurinn BMW safnið, leit við á október fest og fór í nokkur tívolítæki. Á morgun er ferðinni heitið til Landsberg, þar sem miðaldaþorp verður skoðað. Á föstudaginn skoða krakkarnir svo kastala og fleira.

Krakkarnir gista í heimahúsum í Kaufering og gengur ferðin vel í alla staði, að sögn Guðnýjar Stefaníu Stefánsdóttur, sem er fararstjóri ásamt Bryndísi Bjarnason.

Hópurinn er væntanlegur heim aftur á laugardaginn.

 

 

 

Evrópski tungumáladagurinn

1 af 5

Evrópuráðið hefur gert 26. september að árlegum evrópskum tungumáladegi og hefur dagurinn verið haldinn hátíðlegur frá árinu 2001 til að fagna fjölbreytileika tungumála í Evrópu og til að hvetja til tungumálanáms.

Nemendur G.Í. létu ekki sitt eftir liggja. 8. bekkur valdi sér einhverja jákvæða og glaðlega setningu og fann út hvernig hún væri á hinum ýmsu Evrópumálum. Flestir fóru á netið og nýttu sér vefinn snara.is eða google translate en sumir flettu upp í orðabókum af bókasafninu. Vinnan fór fram á ýmsum stöðum, í bekkjarstofum, myndmenntastofu, glerbúrinu, á ganginum eða á bókasafninu. Útkoman varð mjög skemmtileg og má sjá afraksturinn á veggjum skólans, þar sem setningar eins og: Þú ert falleg, Ég elska þig, Mér finnst ís góður og fleiri í þeim dúr hafa verið skrifaðar á veggspjöld á ýmsum tungumálum. 

Forvarnardagurinn

Forvarnardagur 2014 verður haldinn miðvikudaginn 1. október. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Nánari upplýsingar varðandi daginn er að finna á heimasíðu verkefnisins.

Innileikfimi

Frá og með morgundeginum, 30. september, verður leikfimin kennd innandyra. Nemendur þurfa þá að mæta með viðeigandi íþróttafatnað.

Starfsdagur kennara

Á mánudag, 29. september, er starfsdagur kennara og engin kennsla.

Nýjar kartöflur

Í vor settu krakkarnir í 1. bekk niður kartöflur í garði við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Nú nokkrum mánuðum síðar, þegar krakkarnir eru komnir í 2. bekk, var farið og athugað með afraksturinn. Uppskeran var nokkuð góð, nokkuð af gullauga og rauðum íslenskum. 

Krakkarnir skiptu uppskerunni á milli sín og fóru allir heim með kartöflupoka.

Langafi prakkari

Mynd: Möguleikhúsið.
Mynd: Möguleikhúsið.

Í gær fengum við góða og skemmtilega heimsókn þegar Möguleikhúsið bauð 1. - 4. bekk upp á leiksýninguna Langafi prakkari, sem byggir á sögum Sigrúnar Eldjárns.  

Í leikritinu segir frá lítilli stúlku, Önnu, sem leikin er af Rósu Ásgeirsdóttur, og langafa hennar, sem leikinn er af Pétri Eggerz. Þó langafi sé blindur og gamall er hann alltaf tilbúinn að taka þátt í einhverjum skemmtilegum uppátækjum með Önnu litlu. Hann passar hana alltaf á daginn þegar pabbi hennar og mamma eru í vinnunni. Þá hefur hann nægan tíma til að sinna henni og þau gera ýmislegt skemmtilegt saman. Þau skoða mannlífið, baka drullukökur, veiða langömmur og fleira. Þessir langafar geta greinilega verið mjög skemmtilegir og gaman væri að allir ættu svona langafa eins og Anna í leikritinu. Hann kunni nú að bregða á leik, sjá það spaugilega í lífinu og njóta þess. 

Matar-list

1 af 3

Vegna samræmdra prófa í 10. bekk, voru óvenju fáir í listgreinavali á unglingastigi í morgun. Þær stöllur Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari og Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, myndmenntakennari, ákváðu þá að sameina sína hópa.

Ekki stóð á listaverkum nemenda, sem unnin voru úr því sem til féll í heimilisfræðistofunni eins og sojasósu, hunangi, appelsínu- og sólberjasafa, tómatsósu, kryddjurtum, kryddi og fleiru. Glæsileg útkoma svo ekki sé meira sagt! Fleiri myndir má nálgast hér og að sjálfsögðu á instagram síðu myndmenntar.

Samræmd könnunarpróf

Í næstu viku fara fram samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk. Meginhlutverk samræmdra könnunarprófa er að veita nemendum, foreldrum þeirra og skólum, upplýsingar um námsstöðu þeirra við upphaf skólaárs. Stefnt er að því að leggja könnunarprófin fyrir eins fljótt og unnt er að hausti svo niðurstöður þeirra nýtist sem best í skólastarfinu. Þannig er tilgangi þeirra náð með sem skilvirkustum hætti.

Prófaskipulagið er eftirfarandi: 

 

10. bekkur

Íslenska mánudagur 22. sept. kl. 09:00 - 12:00
Enska þriðjudagur 23. sept. kl. 09:00 - 12:00
Stærðfræði miðvikudagur 24. sept. kl. 09:00 - 12:00


4. og 7. bekkur

Íslenska fimmtudagur 25. sept. kl. 09:00 - 12:00
Stærðfræði föstudagur 26. sept. kl. 09:00 - 12:00

Tónlist fyrir alla

Tríóið PAPAPA, þau Jón Svavar Jósepsson, Hrönn Þráinsdóttir og Hallveig Rúnarsdóttir
Tríóið PAPAPA, þau Jón Svavar Jósepsson, Hrönn Þráinsdóttir og Hallveig Rúnarsdóttir

Í dag hélt tríóið PA-PA-PA þrenna tónleika í Hömrum fyrir nemendur G.Í., á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla. Tríóið er skipað söngvurunum Hallveigu Rúnarsdóttur sópran og Jóni Svavari Jósepssyni baritón ásamt píanóleikaranum Hrönn Þráinsdóttur. Í þessu verkefni býður tríóið upp á skemmtilega dagskrá til þess að kynna klassíska söngtónlist fyrir börnum landsins. Hér koma við sögu ýmis furðudýr eins og skrímsli, kurteisir kjúklingar og kettir sem skreppa til London, að ótöldum skötuhjúunum góðu, þeim Papageno og Papagenu úr Töfraflautu Mozarts.

Nemendur G.Í. skemmtu sér vel á tónleikunum og þakka flytjendum skemmtilegan flutning.