VALMYND ×

Fréttir

Foreldradagur

Við minnum á foreldradaginn á morgun, þriðjudaginn 29. janúar. Foreldrar geta pantað viðtalstíma í gegnum www.mentor.is.

Fjölmennt í fjöltefli

1 af 3

Í morgun var haldið upp á Skákdaginn, sem tileinkaður er Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fv. forseta Alþjóða skáksambandsins. Smári Rafn Teitsson, kennari við skólann, bauð nemendum 5. - 10. bekkjar upp á fjöltefli og freistuðu 60 nemendur þess að sigra hann. Ekki tókst það í þetta skiptið, en Smári þurfti þó að hafa verulega fyrir nokkrum sigrum.

Augljóst var að nemendur höfðu virkilega gaman af þessu framtaki og vonandi verður framhald á við tækifæri.

Þorrablót

Á morgun, föstudaginn 25. janúar er bóndadagur, fyrsti dagur þorra. Þá bjóða foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu mæta í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt kennurum og starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 19:00 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 19:30.

Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir (gos og kristall) eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar, sem tekur eingöngu við reiðufé á staðnum. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarnar vikur. Einnig hefur frést af foreldrum við óvenju mikla dansiðkun undanfarið, þannig að það er aldrei að vita nema þeir komi á óvart á dansgólfinu.

Fjöltefli

Laugardaginn 26. janúar verður Skákdagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Dagurinn er tileinkaður Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fv. forseta Alþjóða skáksambandsins.


Af því tilefni mun Smári Rafn Teitsson, kennari við skólann, bjóða nemendum 5. - 10. bekkjar upp á fjöltefli n.k. föstudag í salnum kl. 10:00. Nemendur sem vilja taka þátt verða að skrá sig hjá ritara. Þeir sem geta eru beðnir um að taka tafl með sér.

Foreldradagur

Þriðjudaginn 29. janúar er foreldradagur. Foreldrar geta pantað viðtalstíma í gegnum www.mentor.is frá og með föstudeginum 25. janúar.

Dansæfingar fyrir þorrablót

Þorrablót 10. bekkjar verður haldið föstudaginn 25. janúar n.k. Nemendur eru nú í óðaönn að æfa danssporin undir styrkri stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara. Það er alltaf mikið lagt í þetta þorrablót, þar sem foreldrar sjá um skemmtiatriði og kennarar stíga á stokk og reyna að láta ljós sitt skína. Að borðhaldi loknu er dansinn svo stiginn og virkilega gaman að sjá unglingana dansa gömlu dansana við foreldra, ömmur og afa.

Ný aðstaða ritara

Agnes Kristín Einarsdóttir, ritari skólans, í hinni nýju aðstöðu
Agnes Kristín Einarsdóttir, ritari skólans, í hinni nýju aðstöðu

Í morgun var ný aðstaða skólaritara tekin í gagnið í aðalanddyri skólans við Aðalstræti. Aðstaðan er öll hin besta og mikill munur frá því sem var.

Við bendum því öllum sem erindi eiga í skólann að snúa sér til ritarans á hinum nýja stað.

Sólkerfi 6. bekkjar

1 af 4

Síðustu vikur hafa nemendur 6. bekkjar verið að vinna með sólkerfið í náttúrufræðinni. Hluti af þeirri vinnu var að átta sig á stærðarhlutföllum, fjarlægð frá sólu, fjarlægð á milli reikistjarnanna og fjölda tungla sem þeim fylgja. Afrakstur þessarar vinnu gleður nú augun á gangi skólans, þar sem sjá má reikistjörnurnar í réttum hlutföllum.

Gleðilegt ár

Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegs árs, með von um að allir hafi haft það sem best í jólafríinu.

Ævar vísindamaður blæs nú til fimmta og síðasta lestrarátaks síns og hvetjum við alla til hefja árið á góðum lestrarspretti. Allar nánari upplýsingar varðandi átakið má finna hér á heimasíðu Ævars.

Jólaleyfi

Litlu jólin voru haldin hátíðleg hjá okkur í morgun og um hádegið fóru nemendur heim í jólaleyfi. Kennsla hefst á nýju skólaári föstudaginn 4. janúar 2019.

Nýtt fréttabréf leit dagsins ljós í morgun og má nálgast það hér. Þar er farið yfir það helsta sem verið hefur á döfinni hjá okkur undanfarið, en það er alltaf í ýmsu að snúast utan hefðbundins skólastarfs eins og sjá má þar.

 

Við óskum nemendum, fjölskyldum þeirra og öðrum velunnurum gleðilegrar jólahátíðar og velfarnaðar á komandi ári.