VALMYND ×

Fréttir

Innileikfimi

Frá og með morgundeginum, 30. september, verður leikfimin kennd innandyra. Nemendur þurfa þá að mæta með viðeigandi íþróttafatnað.

Starfsdagur kennara

Á mánudag, 29. september, er starfsdagur kennara og engin kennsla.

Nýjar kartöflur

Í vor settu krakkarnir í 1. bekk niður kartöflur í garði við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Nú nokkrum mánuðum síðar, þegar krakkarnir eru komnir í 2. bekk, var farið og athugað með afraksturinn. Uppskeran var nokkuð góð, nokkuð af gullauga og rauðum íslenskum. 

Krakkarnir skiptu uppskerunni á milli sín og fóru allir heim með kartöflupoka.

Langafi prakkari

Mynd: Möguleikhúsið.
Mynd: Möguleikhúsið.

Í gær fengum við góða og skemmtilega heimsókn þegar Möguleikhúsið bauð 1. - 4. bekk upp á leiksýninguna Langafi prakkari, sem byggir á sögum Sigrúnar Eldjárns.  

Í leikritinu segir frá lítilli stúlku, Önnu, sem leikin er af Rósu Ásgeirsdóttur, og langafa hennar, sem leikinn er af Pétri Eggerz. Þó langafi sé blindur og gamall er hann alltaf tilbúinn að taka þátt í einhverjum skemmtilegum uppátækjum með Önnu litlu. Hann passar hana alltaf á daginn þegar pabbi hennar og mamma eru í vinnunni. Þá hefur hann nægan tíma til að sinna henni og þau gera ýmislegt skemmtilegt saman. Þau skoða mannlífið, baka drullukökur, veiða langömmur og fleira. Þessir langafar geta greinilega verið mjög skemmtilegir og gaman væri að allir ættu svona langafa eins og Anna í leikritinu. Hann kunni nú að bregða á leik, sjá það spaugilega í lífinu og njóta þess. 

Matar-list

1 af 3

Vegna samræmdra prófa í 10. bekk, voru óvenju fáir í listgreinavali á unglingastigi í morgun. Þær stöllur Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari og Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, myndmenntakennari, ákváðu þá að sameina sína hópa.

Ekki stóð á listaverkum nemenda, sem unnin voru úr því sem til féll í heimilisfræðistofunni eins og sojasósu, hunangi, appelsínu- og sólberjasafa, tómatsósu, kryddjurtum, kryddi og fleiru. Glæsileg útkoma svo ekki sé meira sagt! Fleiri myndir má nálgast hér og að sjálfsögðu á instagram síðu myndmenntar.

Samræmd könnunarpróf

Í næstu viku fara fram samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk. Meginhlutverk samræmdra könnunarprófa er að veita nemendum, foreldrum þeirra og skólum, upplýsingar um námsstöðu þeirra við upphaf skólaárs. Stefnt er að því að leggja könnunarprófin fyrir eins fljótt og unnt er að hausti svo niðurstöður þeirra nýtist sem best í skólastarfinu. Þannig er tilgangi þeirra náð með sem skilvirkustum hætti.

Prófaskipulagið er eftirfarandi: 

 

10. bekkur

Íslenska mánudagur 22. sept. kl. 09:00 - 12:00
Enska þriðjudagur 23. sept. kl. 09:00 - 12:00
Stærðfræði miðvikudagur 24. sept. kl. 09:00 - 12:00


4. og 7. bekkur

Íslenska fimmtudagur 25. sept. kl. 09:00 - 12:00
Stærðfræði föstudagur 26. sept. kl. 09:00 - 12:00

Tónlist fyrir alla

Tríóið PAPAPA, þau Jón Svavar Jósepsson, Hrönn Þráinsdóttir og Hallveig Rúnarsdóttir
Tríóið PAPAPA, þau Jón Svavar Jósepsson, Hrönn Þráinsdóttir og Hallveig Rúnarsdóttir

Í dag hélt tríóið PA-PA-PA þrenna tónleika í Hömrum fyrir nemendur G.Í., á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla. Tríóið er skipað söngvurunum Hallveigu Rúnarsdóttur sópran og Jóni Svavari Jósepssyni baritón ásamt píanóleikaranum Hrönn Þráinsdóttur. Í þessu verkefni býður tríóið upp á skemmtilega dagskrá til þess að kynna klassíska söngtónlist fyrir börnum landsins. Hér koma við sögu ýmis furðudýr eins og skrímsli, kurteisir kjúklingar og kettir sem skreppa til London, að ótöldum skötuhjúunum góðu, þeim Papageno og Papagenu úr Töfraflautu Mozarts.

Nemendur G.Í. skemmtu sér vel á tónleikunum og þakka flytjendum skemmtilegan flutning.



Ást gegn hatri

Hermann Jónsson og Selma Björk Hermannsdóttir. Mynd:bleikt.pressan.is
Hermann Jónsson og Selma Björk Hermannsdóttir. Mynd:bleikt.pressan.is

Foreldrafélög Grunnskólans í Bolungarvík, Grunnskólans á Ísafirði og Menntaskólans á Ísafirði bjóða upp á fyrirlesturinn Ást gegn hatri, en hann er ætlaður bæði nemendum og foreldrum. Feðginin Hermann Jónsson og Selma Björk Hermannsdóttir hafa undanfarna mánuði farið í skóla og sagt nemendum sögu sína. Selma hefur rætt um það mikla einelti sem hún hefur lent í og sagt frá hvernig hún hefur unnið úr þeirri reynslu.  Hún mun heimsækja Grunnskólann á Ísafirði og Menntaskólann á Ísafirði 18. september og Grunnskólann í Bolungarvík 19. september.

Hermann hefur rætt við foreldra um það hvernig hann hefur markvisst byggt Selmu upp og kennt henni að takast á við eineltið á einstakan hátt.

 

Boðið verður upp á almennan fyrirlestur sem á erindi við alla foreldra fimmtudaginn 18. september kl. 19:30 í Stjórnsýsluhúsinu og eru allir foreldrar hvattir til að mæta.

 

 

Norræna skólahlaupið

1 af 2

Nemendur G.Í. tóku í morgun þátt í Norræna skólahlaupinu, en það fór fyrst fram á Íslandi árið 1984. Markmið með hlaupinu er að hvetja nemendur til þess að æfa hlaup og auka með því útiveru og hreyfingu, auk þess að kynna og skýra nauðsyn þess að hreyfa sig og reyna á líkama sinn og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Lagt var af stað frá bæjarbrekku við Seljalandsveg. Yngstu nemendur skólans hlupu inn að Engi, miðstigið inn að Seljalandi og elstu krakkarnir inn að Seljalandi eða golfskála.

Krakkarnir stóðu sig allir með mikilli prýði og voru endurnærðir eftir góða hreyfingu.

Myndasíða í myndmennt

Í myndmenntinni hefur verið stofnuð Instagram síða sem vistar myndir af verkefnum sem unnin eru í myndmenntatímum.  Síðuna er hægt að nálgast hér vinstra megin á síðunni undir ,,Myndmennt" eða leita eftir myndmennt.grisa inni á Instagram. Vonumst við til að þetta auki aðgengi að kennslunni og að nemendur geti með auðveldum hætti nálgast myndir af verkum sínum. Svo er um að gera að gerast fylgjandi síðunnar til að missa ekki af nýju efni.