VALMYND ×

Fréttir

Vorverkadagur

Vinabekkirnir 1. og 8. bekkur settu niður kartöflur.
Vinabekkirnir 1. og 8. bekkur settu niður kartöflur.

Í dag var vorkverkadagur í skólanum í samvinnu við Ísafjarðarbæ. Hver og einn árgangur fékk ákveðið verk t.d. að tína rusl, sá grasfræjum, gróðursetja, setja niður kartöflur, pússa, mála o.fl. Veðrið stöðvaði okkur ekki í dag þó heldur væri svalt, en við létum það ekkert á okkur fá og héldum okkar striki.

Eftir góða vinnutörn bauð mötuneytið öllum upp á grillaðar pylsur og svaladrykki eftir góðan morgun.

Myndir frá vorverkadeginum má finna hér.

 

Sveitaferð

Á vorin er fastur liður í skólastarfinu að fara í sveitaferð. 3. bekkur fór í slíka ferð í gær að Hólum í Dýrafirði, þar sem bændurnir Ásta og Friðbert tóku á móti þeim.  Hópurinn skoðaði fjárhúsin, kindurnar og lömbin sem sum voru nýfædd en önnur lengra komin.  Þar var heimaalningurinn Óli sem fékk nokkra til að þjóna sér og leiddist börnunum það ekki.  Ásta sýndi hópnum veðurathugunarstöðina sem þau fylgjast með og eftir það var skroppið í skemmuna að þiggja hressingu.

Eftir það lá leiðin í skólann aftur, þar sem allir áttu notaleg stund eftir skemmtilegan dag.

3. bekkur þakkar bændunum á Hólum í Dýrafirði kærlega fyrir góðar móttökur.

Vorverkadegi frestað

Samkvæmt vorskipulagi var stefnt að vorverkadegi á morgun fimmtudag. Vegna óhagstæðrar veðurspár hefur hann verið færður til föstudags. Umsjónarkennarar senda sínum árgöngum upplýsingar varðandi skipulag morgundagsins.

Heimsókn til Suðureyrar

Síðastliðinn fimmtudag buðu fiskvinnslufyrirtækin Íslandssaga og Klofningur á Suðureyri nemendum 1. bekkjar í heimsókn. Þetta var mikil ævintýraferð og sáu krakkarnir margskonar sjávardýr, sel, hval og marga fiska. Krakkarnir fengu höfðinglegar móttökur og fengu allir köku og safa auk 1 kg. kassa af fyrsta flokks þorski. Það voru aldeilis sælir krakkar sem komu heim eftir þessu góðu Suðureyrarheimsókn og þökkum við fiskvinnslunum kærlega fyrir þetta rausnarlega heimboð.

Löng helgi framundan

Á mánudaginn er annar í hvítasunnu og því löng helgi framundan. Eftir það taka svo við óhefðbundnir skóladagar eins og sjá má á vordagskránni hér vinstra megin á síðunni.

Danssýningar

3. bekkur
3. bekkur
1 af 7

Undanfarna daga hafa 1. - 4. bekkir skólans boðið foreldrum upp á danssýningar, þar sem nemendur hafa sýnt hvað þeir hafa lært í vetur. Krakkarnir stóðu sig með eindæmum vel og foreldrarnir ekki síður, þar sem margir hverjir skelltu sér út á gólfið og tóku þátt í dansinum með krökkunum. 

Kveðjukaffi 10. bekkjar

1 af 3

Í dag er síðasti hefðbundni skóladagur 10 bekkjar - árgangs 1999. Af því tilefni klæddu margir nemendur sig upp og starfsfólk skólans bauð þeim í kveðjukaffi á kaffistofunni.

Næstu daga eru prófadagar hjá árganginum og í næstu viku verður farið í vorferðalag að Bakkaflöt í Skagafirði. Að því loknu taka við starfskynningar og skólaslit.

 

Sumarlestur

Bókasafnið á Ísafirði verður með sumarlestur fyrir börn í 1. - 6. bekk, frá 1. júní til 22. ágúst.
Til að vera með koma börnin á bókasafnið með skírteinið sitt, fá lestrarpésa og bækur að láni. Þegar búið er að lesa bók er settur miði í lukkupott og límmiði er settur í lestrarpésann. Dregið er úr lukkupottinum í lok sumars og öll börn sem hafa tekið þátt fá glaðning.
Bókasafnið hvetur foreldra til að taka þátt í þessu og koma með börnum sínum á bókasafnið til að velja bækur. Starfsfólk aðstoðar gjarnan þá sem vilja og bókalistar munu liggja frammi. Það er mikilvægt að börnin finni eitthvað að lesa sem þeim finnst skemmtilegt og sem hæfir lestrargetu þeirra til að efla lestur og auka orðaforða. Athugið að ekki er leyfilegt að skila bók samdægurs.
Foreldrar barna í 1.- 3. bekk sem fá sitt fyrsta skírteini komi með börnunum, en fyrsta skírteini er ókeypis.

Nýtt fréttabréf

Nú hefur fréttabréf maímánaðar litið dagsins ljós og er það líflegt og skemmtilegt að vanda, enda mikið sem gerist hér í skólanum.

Útistærðfræði

Nú er allur snjór loksins horfinn úr portinu hjá okkur og hitastigið á uppleið. 2. bekk fannst því upplagt að drífa sig út í stærðfræði og unnu krakkarnir á þremur stöðvum. Á einni stöðinni áttu þeir að velja hluti til mælinga á lengd og breidd, á þeirri næstu var farið í leikinn 10-20 og á síðustu stöðinni var bíll látinn renna á þremur mismunandi brautum og niðurstöður skráðar. Það var mikil gleði og kátína í þessum stærðfræðitíma eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.