VALMYND ×

Fréttir

Rýmingaræfing

Í morgun var framkvæmd rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og tók 3:42 að rýma allt húsnæði skólans. 

Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun. Taka þarf manntal á söfnunarsvæðinu, bæði hjá nemendum og starfsmönnum, þannig að engin hætta sé á að einhver hafi orðið innlyksa í skólanum.

Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni, hvort að einhver svæði teppist o.s.frv. og gerðar úrbætur í framhaldinu ef þurfa þykir.

Alþjóðlegi bangsadagurinn

Í dag er alþjóðlegi bangsadagurinn, en hann er haldinn hátíðlegur víða um heim.

Í tilefni dagsins var öllum bangsabókum tjaldað til á skólasafninu þar sem nemendur gátu komið og átt notalega stund. Yngstu krakkarnir buðu böngsunum sínum með sér í skólann í dag og voru því óvenju margir í yngstu bekkjunum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Sinfóníutónleikar

Sinfóníuhljómsveit Íslands bauð 1. - 4. bekk á tónverkið Maximús Músíkus í Íþróttahúsinu á Torfnesi í dag. Verkið er eftir Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara en hún var einnig við stjórn Sinfóníunnar við flutning á sögunni. Þetta er mögnuð saga sem inniheldur nokkur falleg tónverk sem þau fengu að heyra hjá Vali Frey Einarssyni sögumanni.

Krakkarnir skemmtu sér hið besta og þökkum við kærlega fyrir þetta skemmtilega framtak.

Nýsköpunarnámskeið grunnskóla

Sykurpúðaáskorun á námskeiðinu í dag. Mynd: Facebook síða námskeiðsins
Sykurpúðaáskorun á námskeiðinu í dag. Mynd: Facebook síða námskeiðsins
1 af 3

Í dag hófst nýsköpunarnámskeið grunnskólanna á Vestfjörðum og stendur það til föstudags. Námskeiðið er haldið af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, í samstarfi við Landsbankann, Íslandsbanka, Sóknaráætlun Vestfjarða og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

9. bekkur G.Í. tekur þátt í námskeiðinu fyrir hönd skólans og verður gaman að sjá hvaða afurðir líta dagsins ljós eftir hugstormun nemenda. Ekki er nóg að hrinda hugmynd í framkvæmd, heldur þarf einnig að huga að fjármálum og markaðsmálum og er allt tekið með í reikninginn á námskeiðinu.

eTwinning verkefni hafið

Í fyrrahaust skráði skólinn sig í eTwinning  verkefni (rafrænt skólastarf) á vegum Erasmus+ sem er styrkjaáætlun ESB á sviði menntamála, æskulýðsstarfs og íþrótta. Eitt markmiða Erasmus+ er að auka gæði í menntun og þjálfun innan þeirra 34 Evrópulanda sem eiga aðild að áætluninni og stuðla að aukinni Evrópuvídd í menntastarfi. Þátttakendur í þetta skiptið eru auk Íslands; Króatía, Þýskaland, Lettland, Portúgal og Kýpur.

Fyrir skemmstu var skólanum veittur styrkur frá Landsskrifstofu Erasmus að upphæð 14.660 evrum eða rétt um 2 milljónum íslenskra króna. Þeir fjármunir verða nýttir í þróun og framkvæmd nýrra aðferða til kennslu í stærðfræði, vísindum og tungumálum í fjölþjóðlegum evrópskum kennslustofum, til að auka læsi og koma í veg fyrir að nemendur hætti snemma í námi og þá sérstaklega tví/fjöltyngdir nemendur.

Verkefnastjórar skólans eru þær Guðbjörg Halla Magnadóttir og Bryndís Bjarnason og eru þær nú farnar til Gaia í Portúgal á fyrsta fund verkefnisins, sem haldinn er dagana 21.-23. október.

 

 

 

Haustfrí

Framundan er löng helgi en engin kennsla er föstudaginn 16. október, mánudaginn 19. október og þriðjudaginn 20. október. Við vonum að allir mæti endurnærðir á miðvikudaginn eftir gott frí.

Bókasafnsmánuður

1 af 3

Grunnskólinn á Ísafirði og Bæjarbókasafnið hafa sammælst um að efla samstarf sín á milli og verður næsti mánuður því nokkurs konar bókasafnsmánuður í skólanum. Hann hófst í dag, 14. október, með því að allir nemendur á unglingastigi fóru upp á bókasafn og hlýddu á fyrirlestur Ómars Smára Kristinssonar myndlistarmanns um teiknimyndasögur. Farið var í nokkrum hópum enda ekki pláss fyrir alla nemendur í 8.-10. bekk í einu í sal bókasafnsins. Ómar Smári er manna fróðastur um teiknimyndasögur og var fyrirlesturinn bæði mjög fróðlegur og skemmtilegur og er útilokað annað en að hann hafi kveikt áhuga hjá mörgum unglinganna á að kynna sér heim teiknimyndasagnanna betur – enda er sá heimur mjög fjölbreyttur og hægt að finna allt mögulegt þar.

Þann 4. nóvember fara unglingarnir aftur að hlusta á fyrirlestur á bæjarbókasafninu, í það skiptið tekur Fjölnir Ásbjörnsson á móti þeim og talar um vísindaskáldsögur. Auk þess verður farið í fleiri heimsóknir af margvíslegu tilefni og m.a. verður gerð heimildamynd um bókasafnið./HMH

Sjáumst í vetur

Nú er orðið töluvert dimmt á morgnana og því enn nauðsynlegra en áður að sýna aðgát í umferðinni. Við minnum á reglur um notkun hjálma á hjólum og einnig er nauðsynlegt að nota endurskinsmerki. Sjáumst í vetur!

Forvarnardagurinn

Þann 2. október s.l. var forvarnardagurinn og hélt 9. bekkur upp á hann í gær og fylgdi dagskrá sem gefin er út af UMFÍ, skátunum og fleirum. Guðný Stefanía Stefánsdóttir formaður HSV og íþróttakennari við skólann, ræddi við krakkana og horft var á hvatningarmyndband þar sem forseti Íslands ávarpaði unglingana og ýmsir þjóðkunnir Íslendingar sögðu skoðun sína á áfengis- og vímuefnanotkun og ræddu um mikilvægi skipulegs tómstundastarfs og samveru fjölskyldunnar. Að því loknu ræddu nemendur þessi mál í litlum hópum og skiluðu niðurstöðum inn á heimasíðu forvarnardagsins. Síðasti hluti dagskrárinnar, ratleikur þar sem ipad er í verðlaun fyrir 3 heppna þátttakendur, er á heimasíðu verkefnisins. Leikurinn er opinn næstu tvær vikurnar og geta krakkarnir tekið þátt ef og þegar þau vilja. Á heimasíðunni er einnig hægt að sjá myndböndin, þau eru stutt og skemmtileg og tilvalið fyrir foreldra að kíkja á þau.​

Íþróttahátíðin í Bolungarvík

Föstudaginn 9. október er nemendum í 8.-10. bekk boðið á hina árlegu íþróttahátíð í Bolungarvík. Setning hátíðarinnar er klukkan 10 og mun henni ljúka rúmlega sex. Keppt verður í fótbolta, körfubolta, bandý, dodgeball, sundblaki, sundi, skák, borðtennis og spurningakeppni. Ekki eru lengur lið frá hverjum skóla heldur er öllum sem óska eftir að keppa, blandað í fjögur lið og fá allir að keppa í a.m.k. einni grein. Að keppni lokinni er svo ball í sal grunnskólans sem lýkur kl. 23:00.

Nemendur frá Ísafirði fara með rútum til Bolungarvíkur. Klukkan 9:30 fer rúta frá Holtahverfi sem stoppar á strætóleiðinni um Urðarveg. Klukkan 9:45 fer rúta frá skólanum sem stoppar í Króknum og í Hnífsdal. Klukkan 19:00 er síðan rúta frá
Bolungarvík inn á Ísafjörð og önnur eftir ballið (23:00) sem fer strætóleiðina inn í Holtahverfi.

Nemendur frá GÍ hafa verið til fyrirmyndar í framkomu undanfarin ár og vonandi skemmta allir sér vel.