VALMYND ×

Fréttir

Skólastarf með eðlilegum hætti

Skólinn er kominn í jólabúninginn eins og sjá má
Skólinn er kominn í jólabúninginn eins og sjá má

Í dag er óveðrið gengið niður og skólastarf með eðlilegum hætti. Aðventan setur sterkan svip á skólastarfið, með jólatónum og margskonar föndri og jólaundirbúningi.

Skóla aflýst

Skólahald fellur niður í skólanum í dag, miðvikudag, vegna veðurs.

Óveður í aðsigi

Vegna afar slæmrar veðurspár hvetjum við foreldra til að vera vel á verði og gera ráðstafanir til að yngstu börnin verði sótt í skólann klukkan 13.40, ef þeir hafa nokkur tök á því.  Dægradvöl verður opin eins og vanalega en foreldrum er bent á að kynna sér veðurspá vel.

Lýðræðisverkefni skólans fer víða

Mynd frá nemendaþinginu sem haldið var í fyrrahaust.
Mynd frá nemendaþinginu sem haldið var í fyrrahaust.

Nemendaþing var haldið hér í skólanum 1. október 2013 og tókst afar vel. Tilgangurinn með þinginu var að efla vitund nemenda um eigin ábyrgð í skólastarfinu og fá fram sjónarhorn þeirra á hlutverk aðila skólastarfsins og hvað hver og einn getur gert til að hafa jákvæð áhrif á daglegt starf í skólanum.

Í janúar á þessu ári fóru þær Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri og Guðríður Sigurðardóttir, kennari, á ráðstefnuna ,,Norden viser vej - udforinger og styrker i de nordiske uddannelser" eða Áskoranir og styrkur í norænni menntun, sem fram fór í Kaupmannahöfn í Danmörku, þar sem þær þáðu boð um að kynna nemendaþingið. 

Nú í nóvember s.l. flutti svo Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri, þetta lýðræðisverkefni á haustráðstefnu Félags áhugafólks um skólaþróun sem haldin var í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.

Hér má nálgast þá kynningu.

Grýla og hyski hennar heimsótt

1 af 2

Þessa dagana er nemendum G.Í. boðið upp á jólasýningu á Gamla sjúkrahúsinu - Safnahúsinu. Að þessu sinni er fjallað um jólavætti, Grýlu og hyski hennar ásamt jólakettinum, auk þess sem álfar eru á vappi. 

Nemendur 5. bekkjar drifu sig í morgun og urðu ekki sviknir, þar sem þeir gengu inn í fjallasal með alls kyns kynjaverum. Jóna Símonía Bjarnadóttir sagnfræðingur, fræddi krakkana um sögu hinna ýmsu jólavætta og hlustuðu þeir af athygli.

 

Leikið í snjónum

Brugðið á leik á Silfurtorgi (mynd: bb.is)
Brugðið á leik á Silfurtorgi (mynd: bb.is)

Eitt af verkefnunum sem tengjast Comeniusarvinnunni í 8. bekk er að búa til myndbandsauglýsingu sem á að sýna að öll börn séu eins, hvar í heiminum sem þau búa. Hvert þátttökuland tekur upp stutt myndband af börnum að leik og síðan verður þessum myndböndum skeytt saman og bætt við tónlist og texta.

8. bekkur greip tækifærið þegar snjórinn kom í síðustu viku og brá á leik á Silfurtorgi. Kennararnir tóku leikgleðina upp á myndband sem verður lagt í þetta púkk.

Hönnuðir í 10. bekk

Undanfarið hefur 10. bekkur unnið að svokölluðu öskjuverkefni í stærðfræðinni. Nemendur unnu í hópum að hönnun öskju að eigin vali, en þurftu að uppfylla ákveðin skilyrði s.s. mynstur og flutninga. Hver hópur hélt dagbók um vinnu sína, reiknaði allt sem hægt var að reikna s.s. yfirborðsflatarmál, prósentur o.fl. og kynnti svo verkefni sín.

Frumleikinn er alltaf skemmtilegur eins og sjá má á meðfylgjandi myndum af hinum fjölbreyttu verkefnum nemenda.

Sundgarpar standa sig vel

Unglingamót Fjölnis fór fram í Laugardalnum um síðustu helgi og tóku rúmlega 300 sundmenn 14 ára og yngri þátt í mótinu frá 13 félögum. Þar á meðal voru 15 krakkar úr sundfélaginu Vestra.  
Mikolaj Ólafur Frach í 9. bekk G.Í. hafnaði í 1. sæti í 100 m. bringusundi og  3. sæti í 200 m. bringusundi. Einnig náði boðsundsveit Vestra frábærum árangri þar sem hún lenti í 4. sæti af 18 sveitum og voru aðeins 3 sekúndur frá bronsinu. Sveitina skipuðu þau Katla María Sæmundsdóttir og Linda Rós Hannesdóttir úr 6.bekk og Guðmundur Elías Helgason og Nikodem Júlíus Frach úr 7. bekk (www.hsv.is).

Húsbyggingar á aðventu

Heimilisfræðival skólans stendur í ströngu þessa dagana við bakstur og húsbyggingar, undir styrkri stjórn Guðlaugar Jónsdóttur, heimilisfræðikennara. Venju samkvæmt á aðventunni, rísa hin glæstu piparkökuhús, sem gleðja augu og bragðlauka nemenda eins og þessar myndir bera með sér.

Í fyrstu lotu risu sjö hús og er von á fleirum í næstu viku.

Dagur myndlistar

1 af 3

Í tilefni af Degi myndlistar býður Samband íslenskra myndlistarmanna-SÍM grunn- og menntaskólum landsins upp á kynningu frá starfandi myndlistarmanni þeim að kostnaðarlausu. Þessar kynningar hafa farið einstaklega vel fram og hafa margir skólar gert það að árlegum viðburði innan skólastarfsins. 

 

Solveig Edda Vilhjálmsdóttir heimsótti unglingastig í Grunnskólanum á Ísafirði þar sem hún talaði um starfið, sýndi myndir af verkum og sagði frá lífi listamannsins. Nemendur fengu tækifæri á að spyrja hana að lokinni kynningu þar sem spurt var t.d.  hversu mikið kostar verk, hversu langan tíma tekur að mála eitt verk, hvers konar pensla notar listamaðurinn, o.fl.

 

Á heimasíðu verkefnisins má finna myndbönd og fleira áhugavert um starf myndlistarmannsins. /ÓDJ