VALMYND ×

Fréttir

Uppstigningardagur

Á morgun, fimmtudaginn 14. maí, er uppstigningardagur og engin kennsla.

Súpa dagsins

Súpugerðarmeistarar dagsins f.v. Jóhanna, Birna, Tekla, Bjarni Pétur, Guðrún og Karolina.
Súpugerðarmeistarar dagsins f.v. Jóhanna, Birna, Tekla, Bjarni Pétur, Guðrún og Karolina.

Í dag fékk heimilisfræðivalið það verkefni að laga súpu án uppskriftar. Nemendur máttu velja úr ákveðnu hráefni og fengu rúma klukkustund til þess að elda súpu, finna nafn á hana og framreiða síðan einn disk fyrir dómara til smökkunar. Þetta tókst ljómandi vel en keppt var um útlit og bragð. Upphaflega átti verkefnið ekki að snúast um keppni en krakkarnir höfðu mikinn áhuga á þvi þannig að hóað var í sex starfsmenn skólans til að dæma súpurnar góðu. Súpan Heitt mix þótti best, en hinar tvær voru hnífjafnar að stigum.

Þátttakendum þótti þetta fyrirkomulag hið skemmtilegasta og verður það örugglega endurtekið við tækifæri.

Þjóðleikur

Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson í sínum hlutverkum á Þjóðleik. Mynd: Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir.
Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson í sínum hlutverkum á Þjóðleik. Mynd: Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir.

Nú um helgina var Þjóðleikur, leiklistarhátíð ungs fólks, haldinn í Edinborgarhúsinu hér á Ísafirði. Hátíðin er haldin annað hvert ár á landsbyggðinni, að frumkvæði Þjóðleikhússins, í samstarfi við menningarráð, skóla, leikfélög og fjölda annarra aðila. Sex leikhópar ungs fólks af Vestfjörðum og Norðurlandi vestra sýndu tvö glæný íslensk leikverk. Í hópi þessa ungu listamanna voru 28 nemendur úr leiklistarvali og tækniráði Grunnskólans á Ísafirði, undir leikstjórn Hörpu Henrýsdóttur. Krakkarnir voru í tveimur hópum og sýndu bæði leikverk hátíðarinnar, þ.e. Útskriftarferðina eftir Björk Jakobsdóttur og Hlauptu/Týnstu eftir Berg Ebba.

Krakkarnir stóðu sig frábærlega vel og er greinilegt að skólinn á margt efnilegt listafólk, sem við eigum eflaust eftir að sjá meira af í framtíðinni.

Heimsókn í 3X Technology

Í fyrradag var nemendum 10. bekkjar boðið í heimsókn í 3X Technology. Þar tók Karl Ásgeirsson rekstrarstjóri á móti hópnum, kynnti fyrirtækið og sýndi alla þá ótrúlega miklu hönnun og framleiðslu sem þar fer fram. Að lokum fengu allir veitingar og voru leystir út með gjöf eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Nemendur voru hæstánægðir með heimsóknina og þakka kærlega höfðinglegar móttökur.

 

Nýtt nemendaráð G.Í.

Í morgun fór fram kjör formanns nemendaráðs Grunnskólans á Ísafirði 2015-2016. Nýr formaður var kosinn Bjarni Pétur Marel Jónasson og varaformaður verður Ólöf Einarsdóttir.

Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að vinna með þeim næsta vetur.

Vordagskrá 2015

Nú er skipulagið fyrir vordaga komið hér inn á síðuna og hvetjum við alla til að kynna sér það vel. Nánari upplýsingar t.d. tímasetningar ferða og slíkt, verða sendar heim þegar nær dregur.

Grænmetisræktun hjá 1. bekk

1. bekkur að huga að grænmetisræktun
1. bekkur að huga að grænmetisræktun
1 af 12

Það er ekki einungis 4. bekkur sem farinn er að huga að grænmetisræktun. Fyrsti bekkur undirbýr nú vorkomuna með því að láta kartöflur spíra og sá baunum og kryddjurtum. Krakkarnir eru líka mjög duglegir að borða grænmeti og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, þá er einnig hægt að gera heil listaverk úr grænmetinu.

Tómatarækt í 4. bekk

1 af 4

Það eru ýmis störf sem tekin eru fyrir núna á vordögum. Í heimilisfræðinni eru krakkarnir i 4. bekk til dæmis að rækta tómataplöntur. Í dag var umpottað og nú gerum við okkur vonir um að plönturnar taki vaxtarkipp og við förum jafnvel að sjá blóm fara að myndast. Við fylgjumst spennt með framhaldinu á næstu vikum.

Samvera hjá 2. og 3. bekk

Í mörg ár hefur tíðkast sá skemmtilegi siður hér í skólanum að hafa svokallaða samveru hjá yngri bekkjum. Í síðustu viku hittust 2. og 3. bekkur og höfðu þannig samverustund. Margir nemendur stigu á stokk og sýndu hæfileika sína á ýmsum sviðum og má þar nefna söng, fiðludúett, brandara, töfrabrögð, grínatriði, pýramída og fleira.  Það getur reynst erfitt fyrir krakka að standa fyrir framan stóran hóp og leika listir sínar, en þessir krakkar eru orðnir vanir að koma fram og stóðu sig eins og hetjur. Í lokin sungu krakkarnir svo árshátíðarlögin sín og hafa engu gleymt. 

Mánuður eftir af skólastarfinu

Það styttist óðum í skólalok þetta skólaárið, en síðasti kennsludagur er 3. júní. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á vorskipulagið og mun það birtast fljótlega hér á síðunni.

Við minnum á að skóladagatalið í heild sinni er að finna hér ef fólk vill hafa það til hliðsjónar við skipulagningu sumarfrísins. Við megum ekki gleyma því að þó að lítið bóklegt nám fari fram hér í skólanum síðustu kennsludagana, að þá er heilmikið annað sem nemendur fá út úr þeim dögum.