VALMYND ×

Póllandsferð

íslenski hópurinn í Kraká
íslenski hópurinn í Kraká

Í Póllandi biðu hópsins alls konar ævintýri. Fyrst var haldið í skólann þar sem var heilmikil móttökuathöfn og síðan fengu gestirnir að skoða skólann. Daginn eftir fór hópurinn að skoða fótboltaleikvang heimaliðsins en liðið ku gera það gott í Póllandi. Einnig var farið í grasagarð og eftir hádegið hélt hópurinn í stóran og glæsilegan dýragarð þar sem m.a. mátti sjá ljón, gíraffa, nashyrninga, sebrahesta og ýmis önnur framandi dýr. Það rigndi nokkuð hressilega þennan dag en við létum það ekki á okkur fá, enda voru mörg dýranna inni í húsum og hægt að leita skjóls öðru hverju.

Ævintýrin biðu við hvert fótmál og við  fórum milli staða með sporvögnum og lest en þótt það sé hversdagslegt fyrir suma að ferðast með slíkum farartækjum þá getur það verið ævintýri fyrir þá sem aldrei hafa prófað.

Næsta dag fór allur hópurinn til Krakow sem er skammt frá Zabrze. Krakow er mjög falleg borg og við eyddum öllum deginum þar.

Á fimmtudagsmorguninn var frjáls tími og þá var haldið í næstu verslunarmiðstöð þar sem m.a. var H&M. Íslendingarnir gerðu þar góð kaup og skildu eftir drjúgan hluta af gjaldeyrisskammtinum sínum. Eftir hádegið fórum við í mjög athyglisverða heimsókn í stjörnuskoðunarstöð og gróðurhús með pálmatrjám og öðrum hitabeltisgróðri. Nú var farið að hlýna í veðri og sólin aðeins farin að láta sjá sig.

Föstudagsmorgninum vörðum við í skólanum þar sem nemendur frá öllum þátttökulöndunum unnu saman að veggspjaldi og einnig kepptu þeir í ýmsum íþróttum. Eftir hádegið fór hópurinn svo í kolanámu sem er n.k. safn. Sú heimsókn tók þrjá klukkutíma og var mjög fróðleg.

Það er óhætt að segja að svona ferð sé mjög lærdómsrík og koma þar ýmsar námsgreinar við sögu. Fyrst og fremst er þetta mikið enskunám, enska er samskiptamálið í hópnum og allir æfðust í að tala og skilja málið. Svo þurfti að reikna heilmikið – hvað eru mörg zloty í þremur evrum? Og hvað er það mikið í krónum? Það var auðvitað mikið náttúrufræðinám í dýragarðsheimsókninni, stjörnuskoðunarstöðinni, grasagarðinum,  gróðurhúsunum og kolanámunni. Eða þá samfélagsfræðin – allir eru örugglega mun fróðari um öll þátttökulöndin eftir þessa heimsókn. Allir áttu að skrifa ferðadagbók og segja má að það hafi verið íslenskuverkefni vikunnar. Og á heimleiðinni gafst m.a.s. færi á svolitlu dönskunámi þegar millilent var í Kaupmannahöfn.

En síðast en ekki síst felst mikið nám í lífsleikni í svona ferð, því það er svo margt sem þarf að kunna og hafa í huga þegar fólk er að ferðast. Hver og einn þarf að bera ábyrgð á sér og sínu, vera stundvís og kunna sig í samskiptum við aðrar þjóðir. Það reynir á samstöðu og félagsþroska þegar félagar og vinir eru svona mikið saman í heila viku, allir mjög spenntir og oft líka mjög þreyttir. Þá þarf að læra að bíta á jaxlinn og gera gott úr hlutunum. Þetta var í heildina alveg ógleymanleg ferð, mikil lífsreynsla og skemmtileg upplifun sem við búum öll að í framtíðinni.

Verkefnið okkar er nú á enda. Það hefur fært okkur þátttakendunum ómælda ánægju og vonandi skilað sér í aukinni víðsýni og umburðarlyndi eins og markmiðið var. Við erum ákaflega þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í því og þökkum fyrir okkur. /Herdís Hübner

Deila