VALMYND ×

Pappírslaus próf

Stærðfræðipróf í 10. bekk
Stærðfræðipróf í 10. bekk

Síðustu ár hefur upplýsingatækninni fleygt fram og höfum við reynt eins og við getum að nýta okkur hana sem mest og best. Möguleikarnir eru óþrjótandi og virkilega skemmtilegt og spennandi að nálgast námsefni og kennslu á nýjan hátt með tilkomu snjalltækja. Nú er búið að spjaldtölvuvæða 6. - 10. bekk og 5. bekkur mun bætast í hópinn á næstu dögum. Allir þeir nemendur hafa því spjaldtölvu fyrir sig til afnota við námið. Auk þess eru nokkrar spjaldtölvur í hverjum yngri bekkjanna.

Spjaldtölvur henta vel í skólastarfi vegna þess að þær eru einfaldar, aðgengilegar, færanlegar og bjóða upp á fjölbreytta og skapandi notkunarmöguleika. Þær eru allt í senn: hljóðver, myndbandstökuvél, myndavél, hljóðfæri, upplýsingaveita, bókasafn, samskiptatæki, lesstuðningstæki og margt fleira. Svo má ekki gleyma því hversu umhverfisvænar þær eru og spara ómældan pappír. Í 10. bekk tóku nemendur stærðfræðipróf á dögunum í spjaldtölvum og fengu niðurstöður og viðbrögð kennara einnig rafrænt, þannig að engan pappír þurfti þar, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

 

Deila