VALMYND ×

Minning

Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir, Inga Sigga, hefur kvatt. Inga Sigga kenndi við Grunnskólann á Ísafirði í hart nær tuttugu ár, þar til hún lét af störfum fyrir tveimur árum vegna þeirra veikinda sem nú hafa haft betur. Inga Sigga var einstakur kennari, hún bar hag nemenda sinna fyrir brjósti og mætti þörfum hvers og eins sem best hún mátti. Hún var mikil fagmanneskja og fylgdist vel með nýjungum í kennsluháttum, hún var t.d. verkefnisstjóri í upphafi innleiðingar á byrjendalæsi í skólanum. Áður hafði hún tekið þátt í mörgum þróunarverkefnum og var ávallt í fararbroddi. Það var eftirtektarvert að fylgjast með Ingu Siggu í starfi sínu með börnum, virðingin og væntumþykjan gagnvart þeim fór ekki fram hjá neinum, enda þótti nemendum hennar vænt um hana og andrúmsloftið í kennslustundum bar þess merki. Það eru ófáir nemendur sem Inga Sigga hefur kennt og stór hluti Ísfirðinga sem hún hefur haft áhrif á, því að baki hvers nemanda eru heilu fjölskyldurnar. Það má með sanni segja að hún hafi verið kennari af guðs náð. Inga Sigga var líka dýrmæt í starfsmannahópnum, hún var mikill gleðigjafi og húmoristi og alltaf gleði og glaumur þar sem hún var. Það var líka mjög gott að leita til hennar, hún var með gríðarmikla reynslu af kennslu og deildi henni fúslega með öðrum, einnig var hún mjög traust og var trúnaðarmaður kennara í mörg ár. Hún var einnig vakandi yfir starfsandanum í hópnum og einhverju sinni þegar henni fannst að eitthvað þyrfti að hressa upp á hann fékk hún undirritaða í lið með sér og sendum við öllum starfsmönnum litlar gleðisprengjur. Það vissi enginn hver stóð fyrir þessu en það upplýsist hér með. Inga Sigga sýndi mikið æðruleysi í veikindum sínum og var aðdáunarvert að fylgjast með hvernig hún tók þeim. Það kom líka bersýnilega í ljós hve mikilvæg hún var okkur öllum því í kringum hana var stórt stuðningsnet fjölskyldu og vina. Við sendum eiginmanni, sonum og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Skólastjórnendur Grunnskólans á Ísafirði,

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir.

 

Það er kominn tími til að kveðja kæra samstarfskonu okkar, hana Ingu Siggu. Það var afar þungbært þegar Inga Sigga greindist með MND um páskana 2013 og varð að hætta sem kennari eftir 24 ára starf. Missir skólans var mikill; skólastarfsins, starfsfólksins og nemendanna. Inga Sigga hóf störf við Grunnskólann á Ísafirði, sem leiðbeinandi, haustið 1989. Þá var hún nýstúdent frá öldungadeildinni í Menntaskólanum á Ísafirði. Hún lauk svo B.Ed-gráðu í fjarnámi frá KHÍ árið 1996, ásamt 5 öðrum kennurum við skólann. Síðar bætti hún við sig diplómu í kennslu yngri barna. Inga Sigga kenndi aðallega á yngsta stigi skólans og þau eru mörg börnin sem hófu skólagöngu sína undir hennar handleiðslu. Hún var góður og skemmtilegur kennari, ástsæl með eindæmum. Hún var hugmyndarík og lagði sig fram um að finna leiðir til að ná til hvers og eins og hvetja þá til dáða. Hún sýndi nemendum sínum hlýju, veitti þeim athygli og leitaðist við að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra. Hún hafði mikla ánægju af starfi sínu og velferð nemenda hennar var henni hugleikin allt til síðasta dags. Ingu Siggu var einatt falið að sinna faglegum verkefnum innan skólans. Hún var kosin trúnaðarmaður kennara um árabil og gegndi því starfi af trúmennsku, kostgæfni og áhuga. Hún var dugleg við að upplýsa kennarana um það sem var í gangi hverju sinni og það var gott að leita til hennar þegar á bjátaði. Um tíma var hún deildarstjóri á yngsta stigi og svo fagstjóri í íslensku. Síðasta árið sem hún starfaði var hún leiðtogi skólans í Byrjendalæsi. Hún vann að þessum verkefnum af miklum dugnaði og var einstaklega lagið að hafa marga þræði á hendi og tvinna þá saman þannig að útkoman yrði á besta máta. Inga Sigga glæddi vinnustaðinn lífi. Hún var mikill húmoristi, var fljót að sjá spaugilegar hliðar á hlutunum og hafði óskaplega smitandi hlátur. Hún hafði gaman af að segja frá og klæddi frásagnir sínar í þannig búning að hlátrasköll hennar og viðmælendanna hljómuðu um sali og ganga. Það er svo margs að minnast þegar hugsað er til samstarfsins við Ingu Siggu. Hún var góður félagi bæði í leik og starfi. Hún var handlagin, mikill leikari og músíkölsk sem kom sér vel þegar tekist var á við verkefni eins og árshátíð eða aðrar uppákomur í óhefðbundnu skólastarfi. Hún var tilfinningarík og fljót að koma til aðstoðar ef einhver átti um sárt að binda. Það var gott að leita til hennar því hún var hjálpsöm, umhyggjusöm og víðsýn. Það er sárt að vita til þess að ekki er lengur hægt að dæsa og segja stundarhátt: „Æ, ég spyr bara Ingu Siggu að þessu á morgun!“. Inga Sigga var heilsteypt manneskja sem kom vel fram við alla. Hún var rösk til vinnu, mjög skipulögð og vandvirk. Hún var fljót að hugsa og finna leiðir að settu marki. Henni var svo margt til lista lagt. Kæri Gummi, synir og fjölskyldur. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls þessarar einstöku konu. Góðar minningar um hana lifa.

Fyrir hönd starfsfólks Grunnskólans á Ísafirði,

Bergljót Halldórsdóttir, Ingibjörg Karlsdóttir og Jón Heimir Hreinsson.

Deila