VALMYND ×

Hönnunarkeppni First Lego

Lið G.Í. talið f.v. Stefán Freyr, Sveinbjörn Orri, Gylfi, Daði Rafn og Haukur Hildimar.
Lið G.Í. talið f.v. Stefán Freyr, Sveinbjörn Orri, Gylfi, Daði Rafn og Haukur Hildimar.

Liðið Filipo Berio úr Garðaskóla sigraði í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói s.l. laugardag. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í norrænni keppni FIRST LEGO League sem fram fer í Osló í byrjun desember.

Markmiðið með keppninni er að efla færni og vekja áhuga ungs fólks á tækni og vísindum með því að leggja fyrir þau spennandi verkefni sem örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskipta- og skipulagshæfni. Háskóli Íslands hefur staðið fyrir keppninni í rúman áratug.

Að þessu sinni voru 21 lið frá 18 grunnskólum skráð til þátttöku en alls voru þátttakendur um 200 talsins. Liðin höfðu unnið ötullega að undirbúningi í allt haust og mættu þrautþjálfuð til leiks. Grunnskólinn á Ísafirði var á meðal þeirra skóla sem tóku þátt og stóð liðið sig með stakri prýði og samstaðan til fyrirmyndar, undir styrkri stjórn Jóns Hálfdáns Péturssonar, kennara og þjálfara liðsins. Þetta er í annað skiptið sem G.Í. tekur þátt í þessari keppni, en í fyrra vann liðið til verðlauna fyrir besta hönnun og forritun vélmennis.

Deila