VALMYND ×

Hönd í hönd fyrir margbreytileika

Þann 21. mars er alþjóðlegur dagur gegn kynþáttamisrétti. Af því tilefni eru um alla Evrópu haldnir viðburðir tengdir fjölbreytileika undir yfirskriftinni Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti. Síðustu ár hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands staðið að margvíslegum viðburðum í samstarfi við ýmsa hópa ungs fólks á Íslandi.

Þemað í ár er Hönd í hönd og hvetur Mannréttindaskrifstofan alla grunnskólanemendur á landinu að fara út úr skólabyggingunni kl. 11:00 þriðjudaginn 17. mars og leiðast í kringum hana og þannig standa saman með margbreytileika í okkar samfélagi. Skilaboðin eru skýr: Það er bannað að mismuna vegna útlits eða uppruna, njótum þess að vera ólík og allskonar.

Grunnskólinn á Ísafirði ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og munu nemendur mynda keðju utan um skólabygginguna á morgun kl. 11:00. 

Deila