VALMYND ×

Dagur íslenskrar náttúru

Árið 2010 ákvað ríkisstjórn Íslands að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem valinn var er 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Náttúrufræðikennarar við G.Í. láta ekki sitt eftir liggja og reyna eftir fremsta megni að fara með sína hópa út og njóta náttúrunnar, enda ekki langt að fara til að komast í nána snertingu við hana. Í vikunni sem leið fór 4. bekkur t.d. í plöntuskoðunarferð upp í skógræktina fyrir ofan Urðarveg og  skoðaði og tíndi margskonar plöntur.  Lúpínan þótti einkar áhugaverð þar sem fræhulstrin  voru flest orðin tóm og skrýtin í laginu.  Þó fundu krakkarnir nokkur heil fræhulstur og tóku þau heim til nánari athugunar.  Þegar í skólann var komið voru laufblöð og aðrir jurtahlutar settir í dagblöð til þurrkunar og bíða þess að verða skoðaðir nánar.

Deila