VALMYND ×

Fréttir

Ný aðstaða ritara

Agnes Kristín Einarsdóttir, ritari skólans, í hinni nýju aðstöðu
Agnes Kristín Einarsdóttir, ritari skólans, í hinni nýju aðstöðu

Í morgun var ný aðstaða skólaritara tekin í gagnið í aðalanddyri skólans við Aðalstræti. Aðstaðan er öll hin besta og mikill munur frá því sem var.

Við bendum því öllum sem erindi eiga í skólann að snúa sér til ritarans á hinum nýja stað.

Sólkerfi 6. bekkjar

1 af 4

Síðustu vikur hafa nemendur 6. bekkjar verið að vinna með sólkerfið í náttúrufræðinni. Hluti af þeirri vinnu var að átta sig á stærðarhlutföllum, fjarlægð frá sólu, fjarlægð á milli reikistjarnanna og fjölda tungla sem þeim fylgja. Afrakstur þessarar vinnu gleður nú augun á gangi skólans, þar sem sjá má reikistjörnurnar í réttum hlutföllum.

Gleðilegt ár

Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegs árs, með von um að allir hafi haft það sem best í jólafríinu.

Ævar vísindamaður blæs nú til fimmta og síðasta lestrarátaks síns og hvetjum við alla til hefja árið á góðum lestrarspretti. Allar nánari upplýsingar varðandi átakið má finna hér á heimasíðu Ævars.

Jólaleyfi

Litlu jólin voru haldin hátíðleg hjá okkur í morgun og um hádegið fóru nemendur heim í jólaleyfi. Kennsla hefst á nýju skólaári föstudaginn 4. janúar 2019.

Nýtt fréttabréf leit dagsins ljós í morgun og má nálgast það hér. Þar er farið yfir það helsta sem verið hefur á döfinni hjá okkur undanfarið, en það er alltaf í ýmsu að snúast utan hefðbundins skólastarfs eins og sjá má þar.

 

Við óskum nemendum, fjölskyldum þeirra og öðrum velunnurum gleðilegrar jólahátíðar og velfarnaðar á komandi ári.

Jólaundirbúningur

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki, enda aðeins 3 dagar eftir fram að jólafríi. Nemendur eru í óða önn að skreyta hurðir og föndra, auk þess sem má heyra jólasöngva óma á göngum skólans.

Litlu jólin verða haldin hátíðleg hjá okkur á fimmtudaginn en þá er skóladagur frá kl. 9:00 til 12:00. Strætó fer þá kl. 8:40 úr Firðinum og Hnífsdal og heim aftur kl. 12:15. Nemendur mæta prúðbúnir og eiga notalega samverustund með sínum bekkjarfélögum og umsjónarkennurum og einnig verður sungið og gengið í kringum jólatréð. 

Mötuneytið er lokað á fimmtudaginn, en Dægradvöl er opin frá kl. 12:00 og fá börnin að borða þar, auk þess sem starfsmenn þar bjóða nemendum í óvissuferð frá kl. 13:00 - 15:00.

Að loknum litlu jólum hefst jólaleyfi sem stendur til 3. janúar, sem er starfsdagur. Kennsla hefst því aftur föstudaginn 4. janúar 2019.

Snillingar keppa

Snillingarnir er heiti á bókmenntaspurningakeppni sem nú er haldin í þriðja sinn á miðstigi Grunnskólans á Ísafirði og hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Nemendur 4.-7. bekkjar fengu lista yfir 8 barnabækur s.l. vor og voru hvattir til að lesa sem mest af listanum. Valin voru tvö þriggja manna keppnislið úr hverjum árgangi en auk þess má spyrja sinn bekk til að fá aðstoð og því afar mikilvægt að allir undirbúi sig vel.

Úrslitakeppnin var haldin í gær, miðvikudaginn 5.desember í salnum, þar sem 4.KB og 7.KG áttust við. Eftir æsispennandi keppni fóru leikar þannig að 7.KG hafði betur.

Þetta frækna lestrarlið 7.KG er skipað þeim Frosta Gunnarssyni, Hákoni Ara Heimissyni og Matildu Maeekalle og hlaut bekkurinn glæsileg bókarverðlaun að launum.

Silfurliðið í 4.KB skipuðu lestrarhestarnir þau Ásthildur Elma Stefánsdóttir, Sigurbjörg Danía Árnadóttir, Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson og Dagný Emma Kristinsdóttir og komu þau svo sannarlega sterk inn í keppnina og verður gaman að fylgjast með þeim á næstu árum.

Öll liðin stóðu sig frábærlega og reyndust sannkallaðir snillingar og ekki síður stuðningsmennirnir sem jafnvel gátu ráðið úrslitum á stundum. Aðstandendur keppninnar þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir góða frammistöðu og drengilega keppni.

 

Slæmt veður

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu

Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni

Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima  þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun talhólfsnúmer, 8781012,  þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður. 

Opinn dagur

Þar sem 1. desember ber upp á laugardag þetta árið, fögnum við fullveldisafmælinu á morgun, föstudag. Þá er svokallaður opinn dagur þar sem foreldrar eru sérstaklega hvattir til að kíkja við hjá okkur. Hefð er fyrir því að allir sem vilja klæðist betri fötunum og setur það ákveðinn hátíðarblæ á daginn.

Klukkan 17:00 frumsýnir svo leiklistarval skólans leikritið Tjaldið eftir Hallgrím Helgason, í leikstjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur. Önnur sýning verður kl. 19:30 og stendur 10. bekkur fyrir balli að sýningu lokinni fyrir nemendur í 8. - 10. bekk. Nánari upplýsingar má sjá í frétt hér á undan.

Leiksýning

Föstudaginn 30. nóvember mun leiklistarval skólans sýna leikritið Tjaldið eftir Hallgrím Helgason, í leikstjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur.  Frumsýning er klukkan 17:00 og önnur sýning klukkan 19:30 sama dag.  Eftir seinni sýninguna mun 10. bekkur standa fyrir balli fyrir nemendur í 8.-10. bekk og er nágrannaskólum boðið að koma.  

Sýningarnar eru í sal skólans og er almennt verð kr. 1.000, en kr. 800 fyrir eldri borgara og börn yngri en 10 ára. Aldurstakmark er 12 ára nema í fylgd með fullorðnum.
Miðaverð unglinga sem fara bæði á leiksýningu og ball er kr. 1.500 samtals, en unglingar sem fara á annan hvorn viðburðinn greiða kr. 1.000.

Dagur mannréttinda barna

Dagur mannréttinda barna var þriðjudaginn 20. nóvember s.l. en þann dag var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur árið 1989. Hér í skólanum voru ýmis verkefni unnin sérstaklega í tilefni dagsins, auk þess sem nemendur eru upplýstir um mannréttindi í gegnum hinar ýmsu námsgreinar. Það er alltaf gaman að sjá fjölbreytta túlkun nemenda og hér á meðfylgjandi mynd er ein útfærsla frá nokkrum nemendum.