VALMYND ×

Fréttir

Forvarnarfræðsla Magga Stef

Forvarnarfræðsla Magga Stef verður með opinn fræðslufund fyrir foreldra barna og unglinga undir yfirskriftinni Hvenær er besti tími dagsins til þess að ala upp barn, miðvikudaginn 3. maí n.k. kl. 20:00 í Stjórnsýsluhúsinu. Á fundinum verður m.a. fjallað um:

  • Uppeldistengd málefni: gildi, hefðir og venjur
  • Hvernig við styrkjum tilfinningagreind og sjálfstraust barna
  • Kannabisplöntuna (hass/gras/weed/vax/olía) og skaðleg áhrif af neyslu.
  • MDMA, Purple Sprite, Kókaín, læknadóp, Blunt, gas, spítt, Spice, K2, Fentanyl, Krókadíl og fleiri efni

Einnig verða sýnd helstu einkenni fíkniefnaneyslu og hvernig er gott að bregðast við ef grunur um neyslu kemur upp.

Fyrirlesari er Magnús Stefánsson fjölskylduráðgjafi ICADC/ICPS sem hefur starfað hjá Maritafræðslunni síðan árið 2001. Magnús hefur getið sér gott orð í því að ná til ungmenna við að útskýra mögulega skaðsemi vímugjafaneyslu, auk þess sem hann er tónlistarmaður og hefur spilað með hljómsveitum s.s. UTANGARÐSMÖNNUM, EGO og SÁLINNI HANS JÓNS MÍNS. 

Uppfræddir og meðvitaðir foreldrar eru besta forvörn sem völ er á og rannsóknir sýna að unglingar taka mark á því sem foreldrar þeirra segja. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar séu virkir í umræðunni og taki fullan þátt í að fræða unglingana sína. Það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn og eru foreldrar/forráðamenn hvattir til að mæta.

Auk þessa opna fræðslufundar býður Magnús upp á eftirfarandi fundi:

Þriðjudaginn 2. maí kl. 10:00-11:00 fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar, í sal skólans

Þriðjudaginn 2. maí kl. 12:00-13:20 fyrir nemendur 4. bekkjar og foreldra þeirra, í dansstofu skólans

Þriðjudaginn 2. maí kl. 17:00-18:00 fyrir nemendur 5. - 7. bekkjar og foreldra þeirra, í sal skólans.

 

 

Gestir frá Kaufering

Nemendur G.Í. í heimsókn í Kaufering s.l. haust
Nemendur G.Í. í heimsókn í Kaufering s.l. haust

Í september fóru nokkrir nemendur úr 10. bekk til Kaufering í Þýskalandi og dvöldu þar á einkaheimilum hjá jafnöldrum sínum í góðu yfirlæti. Nú eru þýsku krakkarnir komnir til Ísafjarðar og eru að endurgjalda heimsóknina. Í för með þeim eru tveir kennarar. Hópurinn kom til Íslands s.l. fimmtudag,  flaug til Ísafjarðar á laugardaginn og fer til baka næsta fimmtudag. Það er ýmislegt á dagskrá hjá þeim, m.a. heimsókn í Grunnskóla Þingeyrar, kíkt á íslenska hesta, farið í skoðunarferð um Haukadal og fiskeldisstöðina, og að sjálfsögðu komið við í sundlauginni á Þingeyri. Þau tóku þátt í skólastarfinu hér í skólanum í dag, kynntu sér Fablab og síðan var haldið á menningarkvöld 10. bekkjar í Edinborgarhúsinu nú í kvöld.

Á morgun, miðvikudag, verður svo farið til Suðureyrar í heimsókn í fyrirtækin Íslandssögu og Klofning. Kajakróður var á dagskrá og vonandi viðrar nógu vel til að hægt verði að standa við það. Hópurinn snæðir ásamt gestgjafafjölskyldunum fiskrétti í Tjöruhúsinu síðasta kvöldið og síðan verður slegið upp balli hér í skólanum.

Svona heimsóknir eru afskaplega gefandi og lærdómsríkar, bæði fyrir gestgjafa og gesti og mikils virði að kynnast menningu annarra þjóða og styrkja vináttuböndin. ​

Menningarkvöld 10. bekkjar

Í kvöld heldur 10. bekkur menningarkvöld í Edinborgarhúsinu. Nemendur munu bjóða upp á tónlist, dans, ljóðalestur og endursýna árshátíðaratriði sitt frá því í mars. Auk þess mun dúettinn Between Mountains koma fram, en þær stöllur unnu Músíktilraunir nú á dögunum.

Skemmtunin hefst kl. 20:00, aðgangseyrir er kr. 1.000 og eru allir velkomnir.

Alþjóðlegur dagur bókarinnar

Alþjóðlegur dagur bókarinnar er 23. apríl og í tengslum við hann hefur Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði staðið fyrir átaki til styrktar bókasafni skólans síðustu árin í samstarfi við bókaverslunina Pennann/Eymundsson. Verslunin býður 20% afslátt af bókum sem fólk getur keypt til að gefa safninu. Í  versluninni liggur frammi óskalisti frá skólanum en allar bækur eru að sjálfsögðu vel þegnar.

Þetta átak Foreldrafélagsins og bókaverslunarinnar hefur skilað góðum árangri á síðustu árum og er mikilvægt fyrir skólabókasafnið, auk þess sem hlýhugur og stuðningur foreldra við safnið er ómetanlegur.​

Gleðilegt sumar

Í dag er sumardagurinn fyrsti, þó að jörð sé alhvít. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú boðar það gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman, þ.e. að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna - hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing segir um sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Við megum því eiga von á góðu sumri samkvæmt þessu. Við óskum öllum gleðilegs sumars og þökkum fyrir veturinn.

Stutt vika

Nú er skólastarf hafið að nýju eftir gott páskaleyfi. Vikan verður þó í styttra lagi, eða þrír kennsludagar, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn.

Páskaleyfi

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páskaleyfi. Kennsla hefst að því loknu samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 18. apríl. Gleðilega páska.

Samspil hjá 4. og 8. bekk

Í morgun buðu Tónlistarskóli Ísafjarðar og Listaskóli Rögnvaldar upp á samspils tónleika í Hömrum. Þar léku tónlistarnemendur 4. og 8. bekkjar fyrir bekkjarfélaga sína og stóðu sig með stakri prýði. Fjölbreytnin var mikil þar sem nemendur sungu, spiluðu á píanó, gítar, trommur og bassa. 

Samspil þetta hjá 4. og 8. bekk er orðið að hefð og virkilega gaman að sjá hversu gróskumikið starf fer fram hér í tónlistarskólum bæjarins. Hér er hægt að nálgast fleiri myndir frá samspilinu.

Árshátíð lokið

Síðustu daga hefur svo sannarlega verið líf og fjör hér í skólanum. Nemendur og starfsfólk hafa staðið í ströngu við að gera árshátíð skólans sem veglegasta og má með sanni segja að það hafi tekist enn eitt árið. 

Yfirskrift árshátíðarinnar að þessu sinni var Tónlist og voru sýningar 5 talsins fyrir fullu húsi í hvert skipti. Því miður geta ekki allir nemendur séð alla bekki á sviði, þar sem við þurfum að takmarka aðgang vegna plássleysis. En sýningarnar voru allar teknar upp og verða aðgengilegar á næstunni.

Við viljum þakka öllum fyrir frábæra árshátíð, ekki síst nemendum sem fara alltaf á kostum ár eftir ár.

 

Bilun í símkerfi

Þessa stundina er bilun í símkerfi og ekki hægt að ná sambandi við skiptiborð skólans.
Vinsamlegast hringið í síma 894-1688 á meðan viðgerð fer fram.