VALMYND ×

Fréttir

Eldvarnargetraun

Dagný Emma Kristinsdóttir datt í lukkupottinn þegar dregið var í eldvarnargetraun Landsambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna. Getraunin var lögð var fyrir alla þriðju bekki í landinu í framhaldi af heimsókn slökkviliðsmanna í skólana í lok nóvember og byrjun desember s.l. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, bakpoki, reykskynjari og bolur, sem Hermann Hermannsson afhenti Dagnýju í morgun eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Sprengidagur - starfsdagur

Á morgun, sprengidag, er starfsdagur hér í skólanum og engin kennsla.

Ævintýratónleikar

Í morgun bauð Sinfóníuhljómsveit Íslands nemendum 4. - 7. bekkjar á öllu landinu, upp á skólatónleika undir yfirskriftinni Ævintýratónleikar Ævars. Þar lék Sinfóníuhljómsveitin undir stjórn Bernhards Wilkinson nokkur vel valin tónverk úr frægum verkum eins og Harry Potter, Hringadróttinssögu, Sjóræningjum Karíabahafsins o.fl. Tónleikunum var streymt um Netið í beinni útsendingu frá Hörpu og varpað á tjald í samkomusal skólans.

Kynnir á tónleikunum var Ævar Þór Benediktsson og náði hann vel til nemenda með sinni kímni og léttleika. Nemendur G.Í. fjölmenntu á tónleikana sem tókust mjög vel og var virkilega gaman að fá að taka þátt í þeim á þennan hátt.

Bókagjöf

Þórunn Hafdís Stefánsdóttir kom færandi hendi í morgun, þegar hún færði skólanum bók að gjöf. Bókin heitir Kort og inniheldur myndskreytt ferðalag um náttúru og menningu jarðar og er góð viðbót við bókakost skólans. Við þökkum Þórunni Hafdísi kærlega fyrir.

Maskadagur - grímuball

Mánudaginn 12. febrúar n.k. er maskadagur/bolludagur. Þá er hefð fyrir því að nemendur og starfsfólk mæti í búningum og er alltaf gaman að sjá hinar ýmsu persónur birtast.

Grímuballið verður á sínum stað og er skipulagið eftirfarandi:

1. - 3. bekkur kl. 8:20 - 9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:20 - 11:00

6. - 7. bekkur kl. 13:10 - 13:40.

 

Þeir unglingar sem mæta í búningum eru velkomnir á grímuböll hjá vinabekkjum sínum og að sjálfsögðu er heimilt að koma með bollur af ýmsu tagi í nesti.

Á þriðjudaginn/sprengidag er svo starfsdagur og engin kennsla.

 

Fjölgun nemenda

Í vetur hefur verið nokkuð um nýskráningar nemenda í skólann og eru nemendur nú orðnir 360 talsins, 180 stúlkur og 180 drengir, skemmtileg tilviljun það. Stærsti árgangurinn er í 1. bekk, alls 50 nemendur og fæstir í 8. bekk, 25 nemendur. 

Nemendum í skólanum hefur nú fjölgað um 19 frá síðasta vetri og samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, virðist botninum hafa verið náð árin 2014-2016 þegar nemendafjöldi fór niður í 327. En nú liggur leiðin upp á við eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og vonumst við til að sú þróun haldi áfram.

Þakkardagur vinaliða

Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf sem þeir hafa sinnt frá upphafi skólaárs. Umsjónarmenn verkefnisins, þeir Árni Heiðar Ívarsson og Atli Freyr Rúnarsson, buðu svo hópnum í bíó. 

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í 4 ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að:

  • stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum skólanna
  • leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum
  • minnka togstreitu milli nemenda og
  • hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.

Í næstu viku tekur svo nýr nemendahópur við keflinu, en kosið er um vinaliða tvisvar á ári.

Þorrablót 10. bekkjar

Þorrinn hefst á morgun, föstudaginn 19. janúar en þá halda nemendur 10. bekkjar sitt árlega þorrablót. Þar mæta nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt kennurum og starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 19:30 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 20:00.

Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir (gos og kristall) eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar, sem tekur eingöngu við reiðufé á staðnum. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarna viku.

Dansæfingar fyrir þorrablót

Hið árlega þorrablót 10. bekkjar verður haldið föstudaginn 19. janúar næstkomandi, á sjálfan bóndadaginn. Eins og allir vita er nauðsynlegt að vera vel undirbúinn fyrir gömlu dansana á slíkum samkomum. Árgangurinn leggur nú allt kapp á dansfimi sína og standa nú yfir stífar dansæfingar, undir styrkri stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara. 

Hér má nálgast stutt myndband af dansæfingum í morgun og eins og sjá má eru krakkarnir orðnir virkilega fótafimir.

Óveður

Nú er komið vont veður þar sem gengur á með mjög dimmum éljum.  Starfsfólk Dægradvalar mun koma yfir í skóla og sækja þau börn sem ljúka deginum þar en við óskum eftir að foreldrar geri ráðstafanir til að sækja þá sem ekki eiga að fara í Dægradvöl.

Strætó gengur enn og reynt að halda áætlun en farþegar beðnir um að sýna þolinmæði. Sjálfvirkur símsvari hjá strætó er 878-1012.